Þú ert hér: Forsíða

Strákurinn í röndóttu náttfötunum
Höfundur: John Boyne

Bruno verður heldur en ekki hissa þegar hann horfir út um nýja herbergisgluggann sinn í fyrsta sinn. Hvaða staður er þetta eiginlega hér í miðri sveit? Af hverju er þessi mikla girðing allt í kring með gaddavírflækju efst. Bruno hryllir við þessar sjón og ekki síður finnst honum einkennilegt að sjá bara karlmenn og það sem meira er, þeir eru allir í eins fötum, röndóttum náttfötum. Hvers konar staður er þessi Ásvipt?

Strákurinn í röndóttu náttfötunum segir frá fjölskyldu hins 9 ára gamla Bruno sem flytur frá Berlín upp í sveit vegna atvinnu föðurins. Hvorki Bruno né unglingssystir hans Gréta vita við hvað faðir þeirra starfar og það er ekki í þeirra þökk að flytja burt frá vinum og upp í sveit, við hliðina á þessum einkennilega stað Ásvipt. Lesandinn skynjar hins vegar hryllinginn í loftinu og þegar Bruno eignast vin innan veggja Ásvipts á það eftir að draga dilk á eftir sér.

   „„Sjáðu þarna,“ sagði Bruno og Gréta horfði þangað sem hann benti með fingrinum og sá hóp barna koma út úr einum bragga í nokkurri fjarlægð. Þau hjúfruðu sig saman og hermenn voru að æpa á þau. Því meira sem hermennirnir æptu, þeim mun þéttar hjúfruðu þau sig saman, en þá þaut einn hermannanna í áttina að þeim; hópurinn tvístraðist og þau virtust gera það sem hermaðurinn hafði ætlað þeim allan tímann, sem var að standa í beinni röð. Þegar börnin voru búin að mynda röðina fóru allir hermennirnir að hlæja og klappa fyrir þeim.
   „Þetta hlýtur að vera einhvers konar æfing,“ var uppástunga Grétu sem lét sem hún sæi ekki að sum börnin, meira að segja sum af þeim eldri, þau sem voru jafngömul henni sjálfri, virtust gráta.
   „Ég sagði þér að það væru krakkar hérna,“ sagði Bruno.
   „Þetta eru ekki krakkar sem ég gæti hugsað mér að leika við,“ fullyrti Gréta ákveðin. „Þeir eru grútskítugir....““ (blaðsíða 35-36)